Grunn hugtök
Eftirfarandi eru hugtök sem þarf að þekkja við lestur þessa skjals:
- Þýði er sá hópur sem við viljum læra eitthvað um; það getur endurspeglað stóran hóp einstaklinga (Evrópubúar), smærri hóp (Íslendingar) eða heldur lítinn hóp (nemendur HR).
- Þýði þarf að vera skýr, afmarkaður hópur einstaklinga sem eiga eitthvað sameiginlegt.1
- Þýðistölur eru þau gildi sem fengjust ef við hefðum aðgang að öllu þýðinu.
- Gefum okkur að við viljum vita hæð Íslendinga, það er einhver meðalhæð sem fengist ef öll stök þýðis væru mæld. Við getum ekki mælt alla sem þýði samanstendur af – við drögum því úrtak og athugum eiginleika úrtaksins til að komast sem næst raunverulegu þýðisgildi.
- Úrtak er sá hópur sem við mælum því við teljum hann endurspegla þýðið. Við reynum yfirleitt að draga með tilviljunarkenndum hætti úr þýði.
- Úrtakstölur eru þau gildi sem fást frá úrtakinu. Í úrtaki Íslendinga fæst einhvert meðaltal fyrir hæð, þetta meðaltal er dæmi um úrtakstölu og er það næsta sem við komumst því að vita hver hæðin er í raun (þýðinu).
Footnotes
Hér er talað um einstaklinga, það má þó beita ályktunartölfræði á hvað sem er; dýr, bíla, sveppi eða jafnvel hnetusmjör. Hugmyndin stendur þó: þýði endurspeglar heildina sem við viljum draga ályktanir um og sú heild samanstendur af stökum. Í þýði Íslendinga væri hver Íslendingur 1 stak.↩︎