Tilgátur
Við byrjum á því að setja spurninguna okkar fram í formi tilgátu. Í okkar dæmi viljum við vita hvort það sé munur á launum einstaklinga eftir menntun viðkomandi.
Aðaltilgáta
Aðaltilgáta 1 er sú tilgáta sem við höfum áhuga á 2 og tilgreinir einhvers konar mun. Vandamálið er að hún tilgreinir enga fasta tölu sem hægt er að prófa og því ógerlegt að prófa hana beint.
Í okkar dæmi gæti verið munur á launum eftir menntun, en hvaða mun ætti að prófa? Munurinn gæti verið að laun háskólamenntaðra séu 1kr hærri, 15kr, 1.000kr, 35.000kr, 645.000kr, og svo framvegis. Tilgátan “það er munur” hefur svo marga möguleika að það er ekki hægt að prófa þá alla. Við setjum því fram núlltilgátu.
Núlltilgáta
Núlltilgáta tilgreinir tiltekið tölugildi, þar sem ef það tiltekna gildi væri í raun rétt – þá gæti aðaltilgátan ekki líka verið rétt. Í okkar dæmi yrði núlltilgátan sú að laun séu þau sömu óháð háskólamenntun.
Þetta er ekki það sama og að segja að allir séu með sömu laun heldur að þegar við berum saman meðallaun þeirra sem hafa háskólamenntun og þeirra sem hafa hana ekki þá sé meðaltalið hið sama, munurinn = 0, það er engin munur á meðallaunum hópana.
Ef niðurstaðan er að núlltilgátan sé röng – þá hlýtur andstæða hennar að vera rétt. Með öðrum orðum, ef við teljum ólíklegt að það sé engin munur, þá hlýtur jú að vera munur - aðaltilgátan hlýtur þá að vera rétt.
Nú höfum við sett fram tilgátur og næsta skref er að athuga hvort við höfum rétt fyrir okkur – til þess framkvæmum við marktektarpróf.