Almennt um tilgátuprófun
Þegar við framkvæmum rannsókn höfum við einhverjar spurningar í huga sem við viljum leitast svara við. Augljóst vandamál er að tölfræðiforrit skilja ekki setningar – við getum ekki beinlínis sett gögn inn í úrvinnslu ásamt spurningunni “eru mánaðarlaun ólík eftir menntun fólks?”.
Það mætti hugsa ferlið á eftirfarandi hátt: Við yfirfærum spurningarnar okkar yfir á tölfræðimál sem forritið skilur og ákveðum hvaða aðferð eigi að nota við að svara spurningunni okkar. Forritið vinnur úr gögnunum fyrir okkur og spýtir út niðurstöðum. Þessar niðurstöður eru þó á tölfræðimáli og það er okkar verk að skilja hvað þær segja okkur og geta gefið túlkun sem setur þær aftur á mannamál.
Í tilgátuprófun fáum við skýrt svar við spurningunni okkar; já eða nei – eftir því hvort niðurstöður reynast marktækar eða ómarktækar.