Almennt um öryggisbil

Niðurstöður eru marktækar svo nú göngum við út frá því að það sé launamunur eftir menntun. Næsta spurning er þá “Hve miklu munar á launum þeirra sem hafa háskólamenntun og þeirra sem hafa hana ekki?”. Möguleikarnir eru ótalmargir, svo gefum okkur tvær aðstæður:

  1. Munurinn er að jafnaði 10.000kr á mánuði. Þrátt fyrir að sá munur væri marktækur þá er hann vissulega ekki merkilegur – enda svarar það varla kostnaði að lifa við skertar tekjur til fleiri ára til að sækja sér menntun, ef afrakstur þess eru 10.000kr aukalega á mánuði í kjölfarið.
  2. Munurinn er að jafnaði 150.000kr á mánuði. Þetta eru vissulega merkilegri (og skemmtilegri) niðurstöður heldur en í dæminu á undan.

Bæði dæmin lýsa punktspá; það næsta sem við komumst að vita hver munurinn sé í þýði er með því að athuga hver munurinn er í úrtakinu.

Við vitum þó að ekki öll sem hafa háskólamenntun fái ákkurat 150.000kr hærri laun á mánuði – enda vissulega fleiri þættir sem spila inn í. Pælingin verður þá “hversu mikið gæti þetta spágildi rokkað til eða frá?”. Þessari pælingu er svarað með bilspá; öryggisbil er sennilega dæmi um þá bilspá sem er mest notuð. Öryggisbil gefa okkur vikmörk í kringum punktspána. Þegar hingað er komið vitum við að “það er munur og hann er að jafnaði 150.000kr á mánuði”. Öryggisbil bætir við þessa túlkun – tökum tvö dæmi:

  1. Öryggisbil = [140.000 ; 160.000]
    • Það er, launamunur er að jafnaði 150.000kr – til eða frá 10.000kr.

    • Hér er öryggisbilið þröngt, punktspáin helst óbreytt og það er lítil óvissa sem fylgir henni.

  2. Öryggisbil = [10.000 ; 290.000]
    • Það er, launamunur er að jafnaði 150.000kr á mánuði - til eða frá 140.000kr.

    • Hér er öryggisbilið vítt, punktspáin helst óbreytt en það er mikil óvissa sem fylgir henni. Þessi óvissa endurspeglast í því að munurinn gæti verið allt frá mjög ómerkilegum upp í umtalsverðan; hann gæti verið 10.000kr fyrir suma, upp í 290.000kr fyrir aðra.

Í seinna dæminu er óvissan töluvert meiri og niðurstöðurnar eru í raun að gefa okkur minni upplýsingar heldur en í fyrra dæminu. Seinna dæmið væri í raun að segja “það er sennilega fínn munur, hann gæti líka verið mikill, eða nærri enginn - hver veit?” Eftir stendur að ef öryggisbilið er mjög vítt, þá erum við litlu nær – þrátt fyrir að niðurstöður séu marktækar.