Loka pælingar um marktekt.
Þegar hingað er komið höfum við framkvæmt marktektarpróf, vitum hvort niðurstöður séu marktækar eða ómartækar og höfum því skýrt svar við spurningunni hvort munur sé á launum eftir menntun. Gefum okkur að prófið hafi verið marktækt:
Marktækur munur fannst á launum fólks eftir menntun þeirra.
Byggt á þessari staðhæfingu gæti ég hugsað “Glæsilegt – þannig ef ég mennta mig get ég búist við umtalsvert hærri launum fyrir vikið – annars væru niðurstöður ekki marktækar” Eða hvað? Þessi túlkun gæti verið rétt en það eru þó nokkur atriði til að huga að.
“þannig ef ég mennta mig……”
Marktækar niðurstöður þýða að það sé að jafnaði munur á launum hópanna – það er þó ekki þar með sagt að þær niðurstöður eigi við um alla. Það er munur á hópunum heilt yfir, en fyrir einn tiltekin einstakling er sennilega munur - en ekki endilega.
Sambærilegt dæmi væru þær niðurstöður að “fullorðnir séu að jafnaði hærri en börn”. Við skiljum þetta vel en áttum okkur líka á því að það eru vissulega til börn sem eru hávaxnari en en margir fullorðnir.
“…get ég búist við umtalsvert hærri launum fyrir vikið….”
Núlltilgátan okkar var H0: meðallaun háskólamenntaðra = meðallaun óháskólamenntaðra. Það er engin munur á launum = laun eru þau sömu fyrir báða hópa.
Þær aðaltilgátur sem við prófum geta verið stefnutilgátur (einhliða) eða stefnulausar (tvíhliða). Stefnulaus aðaltilgáta segir bara “það er munur” án þess að tilgreina í hvaða átt munurinn er, svo háskólamenntaðir gætu þess vegna fengið lægri laun. Stefnutilgáta tilgreinir hins vegar í hvaða átt munurinn liggur og væri þannig að prófa þá tilgátu að “háskólamenntaðir hafa hærri laun heldur en óháskólamenntaðir” (eða öfugt).
Við þurfum að passa að túlka marktektina í samræmi við þær tilgátur sem voru prófaðar.
“….annars væru niðurstöður ekki marktækar”
- Það er alltaf hætta á að við höfum rangt fyrir okkur (séum að gera höfnunarmistök). Annað tengt vandamál er að eftir því sem úrtakið er stærra þarf munurinn að vera þeim mun minni svo marktekt náist. Í smáum úrtökum gæti munur reynst ómarktækur þó þessi sami munur næði marktekt í stærra úrtaki (sjá dæmi í upphafi marktektarkafla).
Loka pælingin snýr að orðinu umtalsvert en marktekt segir aðeins hvort það sé munur en ekki hve mikill hann er, sem tekur okkur í næstu umfjöllun.